Tix.is

Event info
Húrra og Reykjavík Grapevine kunngjöra: Prins Póló og Páll Ivan frá Eiðum koma fram á frábærum tónleikum! 

Hinn margverðlaunaði og dáði Prins Pólo kemur fram á tónleikum á Húrra laugardaginn 21. febrúar, studdur af sjálfum Páli Ivani frá Eiðum, þeirri sírísandi, ávallt ögrandi stjörnu listheimsins. Mun þetta marka upphaf nýrrar tónleikaraðar sem tímaritið Reykjavík Grapevine stendur að í samstarfi við besta tónleikastað Reykjavíkur, Húrra, en í vændum eru mánaðarlegir tónleikar með bestu, skemmtilegustu, mest spennandi og æðislegustu tónlistarhetjum Íslendinga.  

Prins Póló þarf öngvum að kynna, enda hefur hann gersigrað huga og hjörtu Íslendinga með frjálslegri framkomu, ljúffengum lagasmíðum og tilkomumikilli textagerð síðustu misseri. Það er tónleikaröðinni mikill akkur að fá Prinsinn til að frumsýna hana, enda verðlaunuðu aðstandendur hennar Prinsinn fyrir plötu ársins á tónlistaverðlaunum sínum nýverið, auk þess að útnefna hann tónlistarmann ársins! 

Pál Ivan frá Eiðum ætti helst ekki að þurfa kynna heldur, því hann er æðislegur og allir ættu að þekkja hann. Þeir sem gera það ekki ættu að hundskast til þess að drífa í því hið fyrsta. Hann er virkur myndlistarmaður og rosa duglegur að gera músík líka - og hann er alltaf að setja allt á internetið og það er allt seyðandi og sérviskulegt á besta mögulega máta.

Af hverju eru skemmtistaðurinn Húrra og tímaritið Reykjavík Grapevine að taka saman höndum um að halda tónleikaseríu? Sko, tímaritið leggur mikið uppúr því að sinna íslenskri tónlist og baða hana ást, með umfjöllun og allskonar. Þar sem útlendingar sem Íslendingar leita mikið til blaðsins þegar kemur að því að frétta hvað er eiginlega í gangi í Reykjavík þótti aðstandendum kjörið að nýta áhrifamátt sinn til þess að byggja frekar undir þá æðislegu listamenn sem gefa ritinu sinn tilverugrundvöll og halda fyrir þá tónleika. Og Húrra var tilvalinn samstarfsaðili, enda er margsannað að þar fer besti tónleikastaður borgarinnar. Þessir aðilar eru semsagt dottnir í að skipuleggja tónleika og halda þá, það eina sem listamennirnir þurfa að gera er að mæta hressir með hljóðfæri og spila - allur aðgangseyrir rennur ti þeirra og þeir þurfa ekki að standa í að gera plaggöt og svona heldur. 

Talandi um plaggöt, þá má geta þess að plaggat fyrir viðburðinn var hannað af listrænum stjórnanda Reykjavík Grapevine, Herði Kristbjörnssyni, en samhliða tónleikaröðinni fer í gang plaggataáskorun (innblástur að henni er dreginn frá Breakbeat.is), þar sem bestu hönnuðir borgarinnar skora á hvorn annan að hanna töff plaggöt fyrir tónleika og svo gengur þetta áfram svona eins og stólaleikur eða eitthvað. 

Þess má að lokum geta að Singapore Sling munu koma fram á næstu útgáfu af Húrra Grapevine, sem fer fram laugardaginn 7 mars.

Húsið opnar kl. 21, tónleikar hefjast kl. 22