Tix.is

Event info

Nú hafa fjórir landsþekktir og rótgrónir rokkhundar tekið sig saman til þess að heiðra hljómsveitina The Clash á Gaukunum þann 25. apríl

Hljómsveitina skipa:
Heiðar Örn Kristjánsson (Botnleðja, Pollapönk): Gítar og söngur
Baldur Ragnarsson (Skálmöld, Ljótu hálfvitarnir, Innvortis): Gítar
Jakob Smári Magnússon (SSsól, Das Kapital, John Grant): Bassi
Jón Geir Jóhannson (Skálmöld): Trommur

Á tónleikunum verða öll þekktustu lög The Clash leikin, lög á borð við London Calling, Should I Stay or Should I Go, Guns of Brixton, White Riot og Tommy Gun, ásamt úrvali sem spannar allan ferilinn. Þessi meistaraverk í höndum slíkra snillinga er eitthvað sem engin áhugamanneskja um tónlist skyldi missa af!

Hljómsveitin The Clash var stofnuð í Lundúnaborg árið 1976 og á þeim tíu árum sem sveitin starfaði breytti hún tónlistarlandslagi veraldarinnar varanlega. Með snilling að nafni Joe Strummer í fararbroddi spilaði bandið hve stærsta rullu við að móta það sem við þekkjum í dag sem pönkrokk, og fóru þar fremstir í her hljómsveita á borð við Sex Pistols, Ramones og Television. Til vitnis um áhrif The Clash má nefna að allar 6 breiðskífur sveitarinnar hafa náð gullsölu í Bretlandi og meistaraverkið London Calling platínusölu. Áhrifin eru ótvíræð og enda þótt ferillinn hafi endað árið 1986 halda lögin og áhrifin áfram að lifa.

The Clash heimsóttu Ísland á hátindi ferilsins, og spiluðu á vegum Listahátíðar í Laugardalshöll í júní 1980, hvar Utangarðsmenn hituðu upp, þá nýstofnaðir. Um 4.000 manns sóttu tónleikana og hafði Morgunblaðið þetta um málið að segja:

"Rokkhljómsveitin Clash lék fyrir næstum fjögur þúsund manns í Laugardalshöll á Laugardagskvöldið var. Þeir léku nær linnulaust í um það bil tvær klukkustundir af svo miklum krafti að líkja mætti við breskt fótboltalið. Og eins og það hafi ekki verið nóg til að þreyta þá, brugðu þeir sér, ásamt fylgdarliði, í fótbolta á gólfi Laugardalshallarinnar á eftir."