Tix.is

Um viðburðinn

Hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle verður haldin 8. apríl í hinu frábæra tónleikahúsi Hlégarðs í Mosfellsbæ.

Headliner kvöldsins: DIMMA

Í ár keppa 6 sveitir í úrslitum og mun 15 manna alþjóðleg dómnefnd ásamt áhorfendum velja eina af þeim til þess að spila fyrir Íslands hönd á stærstu þungarokkshátíð heims Wacken Open Air í sumar.

Sérstakir gestir verða DIMMA sem hafa aldeilis verið að slá í gegn hérlendis á síðustu misserum. Með útkomu síðustu tveggja platna, Myrkraverk og Vélráð, sem báðar hafa selst í bílförmum, og stanslausu tónleikahaldi um allt land, hefur sveitin stimplað sig inn rækilega sem ein stærsta þungarokksveit landsins. Með kraftmikilli sviðsframkomu, blýþungum hryn og að sjálfsögðu söngvara í heimsklassa hefur fátt getað stöðvað sveitina. Sveitin hlaut Krókinn 2014, verðlaun Rásar 2 fyrir lifandi flutning, var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna 2014 fyrir tónlistarflutning og var valinn flytjandi ársins á Hlustandaverðlaununum 2016.

Sigurvegarar WMB keppninnar hérna heima í fyrra, In The Company Of Men, munu einnig koma fram og opna kvöldið og sýna keppnisböndunum hvernig á að gera þetta en ITCOM hafa verið iðnir við kolann frá síðustu keppni og gefið frá sér efni af nýrri hljómplötu sem er í uppsiglingu á næstunni. Stíga þeir á svið 19:30. Eftir ITCOM hefst svo Wacken Metal Battle keppnin en sveitin sem hlýtur hnossið heldur til Þýskalands í sumar á Wacken Open Air. Þar spilar hún fyrir mörg þúsund manns og tekur þar með þátt í lokakeppni Wacken Metal Battle ásamt 29 öðrum þjóðum þar sem ansi rausnarleg verðlaun bíða efstu 5 sveitanna.

Húsið opnar kl. 19.00 - Byrjar 19:30

Eftirtaldar sveitir taka þátt í Wacken Metal Battle í ár, í stafrófsröð:

AETERNA
AUÐN
CHURCHHOUSE CREEPERS
GRAVE SUPERIOR
LIGHTSPEED LEGEND
WHILE MY CITY BURNS

Sigursveitin er valin af áhorfendum og fjölskipaðri alþjóðlegri dómnefnd, en fjölmargir blaðamenn frá helstu metalbiblíum heimsins mæta, ásamt ýmsu bransafólki, bókurum, umboðsmönnum og fulltrúum útgáfufyrirtækja. Alls mæta 10 erlendir aðilar frá Finnlandi, Danmörku, Bretlandi, Þýskalandi, Suður Afríku, Hollandi, Noregi, Ítalíu og Belgíu. Einnig verða í dómnefnd þungarokksspekúlantar frá helstu fjölmiðlum Íslands.

Áhorfendur hafa einnig atkvæðisrétt þannig að það er um að gera að mæta snemma og styðja sína sveit en atkvæðaseðlar verða afhentir við inngang.

Fyrir þá sem ekki komast á keppnina en vilja mæta síðar og ná Dimmu að þá munu þeir stíga á svið uppúr ellefu.

Nánari upplýsingar á www.facebook.com/WackenMetalBattleIceland og metal-battle.com

Athugið að það er takmarkað magn miða á þennan viðburð.

Styrktaraðilar keppninnar eru: Reykjavíkurborg, Rás 2, Útón, Wow Air og Monster Energy.