Tix.is

Um viðburðinn

Pat Metheny þarf vart að kynna fyrir tónlistarunnendum, enda er hann fyrir löngu orðinn goðsögn í lifanda lífi. Kornungur var hann farinn að spila með fremstu jassistum í Kansas City og aðeins tvítugurað aldri lét hann að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Hann gat sér fljótt orð fyrir afar persónulegan stíl með ljóðrænum og í senn hrynföstum spuna sem sótti ríkulega í swing, melódíu og blús jasshefðarinnar. Með fyrstu plötu sinni, Bright Size Life (1975), má segja að hann hafi endurmótað hlutverk gítarsins innan jassins fyrir nýja kynslóð tónlistarmanna. Allan sinn ferill hefur hann verið ötull frumkvöðull við að tileinka sér nýja tækni og jafnframt haldið áfram að þróa möguleika gítarsins.

Fjölhæfni Methenys á varla sína hliðstæðu, sama hvaða hljóðfæri á í hlut. Um árin hefur hann spilað með jafn ólíkum tónlistarmönnum og Steve Reich, Ornette Coleman, Joni Mitchell, Herbie Hancock og David Bowie. Auk afreka sinna sem afburðaflinkur gítarleikari hefur Metheny einnig sinnt kennslu í ríkum mæli. 18 ára gamall varð yngstur til að kenna við University of Miami og ári síðar endurtók hann leikinn við Berklee College of Music, þar var hann gerður að heiðursdoktor tuttugu árum síðar (1996) svo fátt eitt sé talið.

Það er eitt að ná vinsældum sem tónlistarmaður, en allt annað að geta viðhaldið lofi og aðdáun jafningja sem gagnrýnenda yfir margra áratuga skeið. Ótal sinnum hefur Metheny verið valinn besti jasssgítarleikari ársins og eins hefur hann hlotið 20 Grammy – verðlaun í fjölmörgum flokkum. Árið 2015 var hann tekinn inn í Downbeat Hall of Fame og var einungis fjórði gítarleikarinn til að hlotnast sá heiður (ásamt Django Reinhardt, Charlie Christian og Wes Montgomery), en Metheny er yngstur þeirra. Drjúgan hluta ævinnar hefur Pat Metheny verið á tónleikaferðalagi og hefur hann oft haldið meira en 100 tónleika á ári.

Eins og vænta má eru engir aukvisar í för með Metheny. Þetta eru Antonio Sanchez, fjórfaldur Grammy – verðlaunahafi, sem er af mörgum talinnn einn fremsti trommuleikari heims. Hannn hefur leikið á meira en 100 plötum með risum eins og Chick Corea, Michael Brecker,Charlie Haden, Gary Burton og Toots Thielmans. Á píanó er Gwilym Simcock sem hefur þegar getið sér gott orð á evrópsku tónlistarsenunni fyrir hrifandi píanóleik. Um bassaleik sér hin ástralska Linda Oh, en hún hlaut heiðursverðlaun árið 2009 í Thelonious Monk Bass Competition og var valin besti bassaleikarinn af gagnrýnendum í Downbeat´s Critic´s Poll árið eftir.

Því er óhætt að fullyrða að jassunnendur eiga sannkallaða veislu í vændum.