Tix.is

Um viðburðinn

St. Petersburg Festival Ballet ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands vekja Þyrnirós, eina ástsælustu perlu ballettheimsins, til lífsins í Eldborg í nóvember. 

St. Petersburg Festival Ballet snýr á svið Hörpu í fimmta skiptið og dansar alls fjórar sýningar dagana 23.-25. nóvember við hljómsveitarleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ballettsýningar dansflokksins hafa fest sig í sessi á Íslandi og eru orðnar ómissandi partur af jólaundirbúningi meðal barna og fullorðna. Á sýningum St. Petersburg Festival Ballet í Hörpu frumsýnir ballettflokkurinn spánýja búninga og sviðsmynd sem hvergi hefur sést áður.

Sagan um hina fögru sofandi prinessu og hinn hugrakka prins sem vekur hana upp með álagakossi er mönnum löngu kunn og hefur þessi tímalausa ástarsaga um sigur hins góða yfir hinu illa heillað áheyrendur. Þyrnirós er einn stórkostlegasti ballett hinna klassísku dansbókmennta, en tónskáldið Pyotr Tchaikovsky taldi sjálfur verkið sinn besta ballett.

Í konungsríki einu fæddist prinsessa að nafni Þyrnirós. Illa álfkonan Skaði lagði á hana þá bölvun að á sextánda afmælisdaginn myndi hún stinga sig á snældu og deyja. Góða álfkonan Gefjun kom til bjargar og breytti bölvuninni á þann veg að Þyrnirós, ásamt öllu konungsríkinu myndi falla í djúpan svefn í staðinn og vakna aðeins við sannan ástarkoss. Hundrað árum síðar hélt hinn hugrakki Filipus prins af stað og freistaði þess að rjúfa álögin.

Stórkostleg tónlist Tchaikovsky og hrífandi danshreyfingar Marius Petipa flytja áheyrendur um töfrum gæddan heim fullan af undrum og ævintýrum.

Harpa, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, kynnir Þyrnirós með stolti.

Fyrir tilstilli Menningarbrúar milli Hörpu og Hofs, sem var reist í september 2015, verður ballettinn Þyrnirós einnig sýndur í Hofi á Akureyri en þá ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þann 26. og 27. nóvember.

Helmings afsláttur er af miðaverði fyrir börn 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.