Tix.is

Um viðburðinn

Efnisskrá

Ludwig van Beethoven: 33 tilbrigði um vals eftir Diabelli
Lars Petter Hagen: Diabellicadenza.

 Ingrid Andsnes er einn fremsti píanóleikari Noregs sem vakið hefur athygli fyrir hrífandi og ástríðufullan tónlistarflutning. Árið 2015 sendi hún frá sér sína fyrstu einleiks geislaplötu, með Diabelli tilbrigðum Beethovens, ásamt Diabellicadenza eftir norska tónskáldið Lars Petter Hagen. Platan hlaut mikið lof tónlistarunnenda og gagnrýnenda víða um heim, t.a.m. í New York Times dagblaðinu. Í kjölfarið hélt Ingrid tónleika í Carnegie Hall og var þar ákaft fagnað af tónleikagestum, sem spruttu á fætur af hrifningu í lok tónleikanna.

 Ingrid hefur verið atkvæðamikil í norsku tónlistarlífi og komið fram sem einleikari með fjölda norskra hljómsveita. Jafnframt hefur hún unnið með nokkrum af fremstu tónlistarmönnum Noregs og komið fram á helstu tónlistarhátíðum Noregs.

 Undanfarin ár hefur Ingrid Andsnes fikrað sig út fyrir hinn hefðbundna ramma klassískrar tónlistar. Sem dæmi má nefna verk fyrir píanó og nútímadansara, sem Örjan Matre samdi sérstaklega fyrir hana. Árið 2013 kom hún fram í leikverkinu 33 Variations eftir Moisés Kaufmann, sem sett var upp í þjóðleikhúsi Normanna í Ósló, en þar fór hún með stórt hlutverk og Diabelli tilbrigði Beethovens. Hún tekur oft þátt í verkefnum tengdum nútímatónlist og hefur þá unnið með tónskáldum á borð við Marcus Paus, Julian Skar og Lars Petter Hagen.

 Ingrid stundaði nám hjá prófessor Joan Havill við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum og prófessor Jiri Hlinka við Barratt Due Institute of Music í Ósló. Hún hefur hlotið viðurkenningar og unnið til verðlauna bæði innan Noregs og utan, t.a.m. Janácek verðlaun Firkusný keppninnar í Tékklandi árið 2003.