Tix.is

Um viðburðinn

Budapest Festival Orchestra er meðal 10 bestu sinfóníuhljómsveita í heimi að mati Gramophone og fleiri virtra álitsgjafa um tónlist. Velgengni sveitarinnar er með eindæmum og má með sanni segja að hljómsveitin hafi skotist á stjörnuhimininn. Hljómsveitarstjóri sveitarinnar er hinn heimsfrægi Iván Fischer. 

Budapest Festival Orchestra var stofnuð af þeim Iván Fischer og Zoltán Kocsis sem völdu í hana rjóma ungra ungverskra hljóðfæraleikara. Starf hljómsveitarinnar átti fyrst í stað að vera lítið umfangs en hljómsveitin sló svo rækilega í gegn að hún selur auðveldlega upp þrenna tónleika í hvert sinn sem hún kemur fram. Á aðeins 34 árum hefur hún rokið beint í fyrsta flokk sinfóníuhljómsveita á heimsvísu, ásamt Berlínarfílharmóníunni og Vínarfílharmóníunni með sína mörghundruð ára sögu.

Iván Fischer hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Budapest Festival Orchestra frá upphafi. Hann er einhver áhugaverðasti tónlistarmaður okkar tíma, jafnvígur á nokkur hljóðfæri, tónskáld og hljómsveitarstjóri. Hann hefur sérstaklega líflega og ferska nálgun á “klassíska” tónlist og leitast við að brjóta upp allt sem annars getur virst staðnað eða íhaldssamt.

Hljómsveitin er reglulegur gestur í helstu tónleikahúsum heims og hefur m.a. komið fram í Carnegie Hall, Lincoln Center í New York, Royal Concertgebouw í Amsterdam og Royal Albert Hall. Hún hefur sópað til sín fjölda verðlauna og árið 2008 var hún valin sú níunda besta í heimi af fremstu tónlistargagnrýnendum í heimi og sló þar við Fílharmóníunni í New York og Sinfóníuhljómsveit Boston. Tvær plötur sveitarinnar hafa unnið til Grammy verðlauna og hljóðritun þeirra á Mahler Sinfóníu nr. 5 hlaut bæði Diapason d’Or og Italy’s Toblacher Komponierhäuschen verðlaunin fyrir bestu Mahler hljóðritunina. Árið 2016 verðlaunuðu samtök tónlistargagnrýnenda í Argentínu sveitina sem bestu erlendu sinfóníuhljómsveitina.

Efnisskráin á tónleikum Budapest Festival Orchestra í Hörpu er einstaklega aðgengileg. Hún hefur mikla breidd, með verkum frá tímum barokksins, klassíkurinnar og rómantíkurinnar. Flutt verður Hljómsveitarsvíta í h-moll eftir J.S. Bach, Píanókonsert nr. 3 í c-moll eftir Beethoven og Sinfónía nr. 2 eftir Rachmaninov, en hljómsveitin flytur sömu efnisskrá á ferð sinni um Bandaríkin.

Einleikari á píanó er sá einhver eftirsóttasti í heiminum í dag, hinn ungverski Dénes Várjon. Hann er reglulegur gestur með helstu hljómsveitum og í helstu sölum heims og hefur unnið náið með Fisher í áraraðir. Það verður því ómetanlegt að fá að fylgjast með þeim félögum í dramatískum konsert Beethoven.