Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Fáir píanóleikarar hafa hlotið þvílíkt lof síðustu ár fyrir túlkun á verkum Beethovens sem enski píanistinn Paul Lewis. Hljóðritun hans á öllum píanósónötunum hlaut meðal annars Gramophone-verðlaun, og hann varð fyrstur til að leika alla píanókonserta Beethovens á einni og sömu Proms-hátíðinni árið 2010. Hann vakti líka mikla athygli fyrir frábæran leik sinn í Hörpu árið 2013.

Nú mun Lewis leika alla fimm píanókonserta Beethovens á þrennum tónleikum með Sinfóníuhljóm- sveit Íslands, í mars og september 2017, og febrúar 2018. Með konsertunum hljóma sinfóníur eftir þrjá samtímamenn Beethovens sem einnig settu mark sitt á tónlistarlífið í Vínarborg: Haydn, Mozart og Schubert.

Það er vel við hæfi að hefja þennan Beethoven-hring á konsertinum nr. 2, því hann er hinn elsti af útgefnum konsertum Beethovens hvað sem raðtölum líður. Greina má áhrif Mozarts í ljúfum og áreynslulausum hendingunum, en í hinum kraftmikla konserti nr. 3 hefur Beethoven fundið sinn eigin dramatíska tón. „Kraftaverks“-sinfónía Haydns er bæði fáguð og kraftmikil. Viðurnefni sitt hlaut hún af því að sagt var að ljósakróna hefði fallið úr loftinu meðan á flutningi hennar stóð, en til allrar hamingju ekki skaðað nokkurn mann.