Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Hljóðfærasnillingar 19. aldar settu gjarnan saman í syrpur dáðustu aríur úr þeim óperum sem nutu mestrar hylli; hvað tæknikröfur snertir eru þessar útsetningarnar oft á mörkum hins ómögulega. Flestar þessar syrpur eru nú öllum gleymdar, en undantekningin er hin vinsæla Carmen-fantasía spænska fiðlusnillingsins Sarasates. Hér er að finna öll vinsælustu stefin úr óperu Bizets, í bland við tilþrifamikið virtúósaspil og fingurbrjóta. Hollenski fiðluleikarinn Simone Lamsma leikur Carmen-fantasíuna og einnig hið ljúfa og ljóðræna Poe`me. Lamsma hefur vakið mikla athygli síðustu ár fyrir leik sinn og gagnrýnendur hafa dáðst að „ægifögrum, fáguðum og tjáningarríkum“ leik hennar. Hún leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1718.

Fyrri hluti tónleikanna er helgaður frönskum tónskáldum en eftir hlé verður haldið lengra suður. Capriccio italien („Ítölsk gletta“) er eitt vinsælasta hljómsveitarverk Tsjajkovskíjs, samið í Róm og kryddað með léttum ítölskum götusöngvum. Kætin er einnig í fyrirrúmi í spænskum morgunsöng Ravels sem er eitt hans glæsilegasta hljómsveitarverk.