Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Tónleikaárið 2016-2017 fer af stað ný tónleikaröð í Hörpu, svokallaðir Sígildir sunnudagar.

Sígildir sunnudagar eru regnhlífarhugtak yfir klassískar tónleikaraðir og staka viðburði í Norðurljósum, Kaldalóni og opnum rýmum á sunnudögum í vetur kl 17:00. Með röðinni gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum í Hörpu vikulega.

Lögð er áhersla á fjölbreytt úrval tónleika með sígildri söng- og hljóðfæratónlist. Meðal þátttakenda í röðinni eru tvö flaggskip íslenskrar tónlistar á klassíska sviðinu, Kammersveit Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbburinn, en auk þeirra koma fram Strokkvartettinn Siggi, Kammerhópurinn Elektra, Ljóðasöngsröð Gerrit Schuil og Barokksveitin Brák, ásamt fleirum. Auk þess verður ferður sett á stokk ný tónleikaröð ungra tónlistarmanna í samstarfi við FÍT og FÍH, Velkomin heim. Með henni er ungt tónlistarfólk sem nýlokið hefur námi hvatt til dáða. Sígildir sunnudagar eru metnaðarfullt átak sem vert er að fylgjast með.

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur eru orðnir ómissandi hluti af jólahaldi margra borgarbúa.

Að vanda verða á efnisskrá tónverk barrokktímabilsins sem hafa á sér hátíðarblæ og geta hrifið áheyrendur upp úr hversdagslegri tilveru sinni inn í annan og viðhafnarmeiri heim. Að þessu sinni gefst tónleikagestum tækifæri til að heyra okkar ástsæla Kristinn Sigmundsson syngja með kammersveitinni. Einn af fremstu semballeikurum heims, Jory Vinikour, mun stjórna tónleikunum auk þess að flytja sembalkonsert í d-moll eftir C.P.E. Bach.

Kristinn Sigmundsson þarf vart að kynna en hann hefur starfað sem söngvari í yfir 30 ár. Hann mun flytja jólaaríur úr Kantötu númer 8 og Jólaóratoríu eftir J.S. Bach, og aríuna The trumpet shall sound úr Messíasi eftir Händel. Hann hefur komið fram í flestum stærstu óperu- og tónlistarhúsum heims, t.d. Metropolitan-óperunni og La Scala í Mílanó, svo nokkuð sé nefnt. Í ár hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir framlag sitt til tónlistarlífsins.

Jory Vinikour kemur fram á tónleikum um allan heim og er hérlendum tónleikagestum einnig kunnur. Um leik hans skrifaði Sigríður Björnsdóttir í DV: „Heimsókn Vinikours hingað er mikill tónlistarviðburður. Maðurinn leikur eins áreynslulítið á sembal og aðrir anda og af svo miklu listfengi að annað eins hefur vart heyrst hér. Þegar svo við bætist sú djörfung sem m.a. mátti heyra í Menúett í BWV 1033 er ljóst að viðkomandi nýtur og gefur af einstökum rausnarskap.” Jory vann til fyrstu verðlauna í alþjóðlegu sembalkeppnunum í Varsjá og Prague Spring Festival og hefur tvívegis verið tilnefndur til Grammy verðlauna.

Jory og Kristinn kynnust í Parísaróperunni þar sem þeir fluttu saman óperuna Ariodante eftir Händel undir stjórm Marc Minkowski, með Anne Sophie von Otter og fleira góðu fólki.