Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Stafrænn heimur Bjarkar eða Björk Digital er nýstárlegt sýndarveruleikaverkefni sem sameinar tónlist Bjarkar og nýjustu tölvutækni. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa gengst fyrir komu verkefnisins til Íslands í samvinnu við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Sýningin verður opnuð um leið og hátíðin hefst, en Björk heldur einmitt tvenna tónleika á Airwaves í ár. Gestir sýningarinnar fá að kynnast tónheimi Bjarkar á alveg nýjan hátt með því að njóta verka sem hún hefur gert í samvinnu við nokkra framsæknustu leikstjóra og forritara á sviði sýndarveruleika. Sýningin verður á þrem hæðum á austurhlið Hörpu og mun standa til áramóta.

Nýverið hélt Björk tónleika í Royal Albert Hall við meðleik strengjasveitar sem hlutu mikið lof gagnrýnenda sem og áheyrenda. Sem listamaður leitar Björk stöðugt nýrra tjáningarforma og hefur beitt nýjustu tækni við myndgervingu verka sinna. Hún telur að með nýrri sýndarveruleikatækni sé hægt að ná tengslum við áheyrendur á annan og nánari hátt en fæst með því að hlusta á geisladisk eða hlýða á tónleika. Hér er á ferðinni ný tegund af persónulegum listflutningi þar sem áheyrendur upplifa tónlistina í næði og beinu sambandi við listamanninn. „Skilnaðarplötu“ Bjarkar, Vulnicura, má rekja til þess afar persónulega viðburðar sem sambandsslit eru. Platan varð grunnurinn að sýndarveruleikasýningunni Björk Digital, þar sem möguleikar sýndarveruleika og tónlistar eru kannaðir. Á sýningunni geta gestir einnig upplifað gagnvirka margmiðlunarverkið Biophilia. Í verkinu renna náttúra, tónlist og tækni saman í eitt. Lögin í Biophiliu eru jafnframt forrit sem notuð eru við kennslu víða á Norðurlöndunum. Auk þess hafa 29 lög frá ferli Bjarkar verið endurhljóðblönduð fyrir 5.1 hljóðkerfi, sérstaklega fyrir þessa sýningu. Hægt er að hlusta á þau í réttri tímaröð í kvikmyndaherbergi sýningarinnar. Að sögn Bjarkar er hlutverk listamannsins m.a. „að gæða tæknina sál“. Það gerist svo sannarlega með þessari sýningu, sem þegar hefur ferðast til Ástralíu og Japan og er í októbermánuði í Somerset house í London. Sýningin í Hörpu er stærsta útgáfa Björk Digital sem sýnd hefur verið og meðal verka á sýningunni er nýjasta verkið, Family Room.

Icelandair, Valitor, Bláa Lónið og Landsbankinn eru styrktaraðilar Björk Digital í Hörpu.

Þar sem Björk Digital sýningin stílar inn á einstaklingsupplifun komast aðeins 20 manns að í einu. Hleypt er inn á sýninguna á 15 mínútna fresti og mikilvægt er að mæta tímanlega því þeim sem koma seint verður ekki hleypt inn. Sýningin tekur minnst 90 mínútur. Gengið er inn á 5. hæð á Austurhlið Hörpu.