Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Tveir septettar, tónleikar 10. september kl. 17 í Norðurljósum, Hörpu

Á fyrstu tónleikum starfsársins leikur Kammersveit Reykjavíkur septetta eftir tvö tónskáld klassíska tímabilsins, Ludwig van Beethoven og Johann Nepomuk Hummel.

Septettinn op. 20 eftir Beethoven (1770-1827) var frumfluttur árið 1800 og varð fljótt mjög vinsæll. Hljóðfæraskipanin, klarinett, horn, fagott, fiðla, víóla, selló og kontrabassi, var nýlunda á þessum tíma. Verkið varð einnig vinsælt í ýmsum útsetningum og gerði Beethoven m.a. sína eigin útgáfu fyrir tríó. Á tónleikum Kammersveitarinnar verður verkið leikið í upprunalegri útgáfu Beethovens.

Johann Nepomuk Hummel (1778-1837) var vinsælt tónskáld og píanóleikari í Vínarborg. Hummel var af mörgum samtímamönnum sínum talinn jafningi Beethovens sem tónskáld, en upprisa rómantísku bylgjunnar í Evrópu varð Hummel erfið og féll hann nokkuð úr tísku undir lok ævinnar.

Septettinn var saminn árið 1816 og naut verkið mikillar velgengni og átti sinn þátt í að koma Hummel á kortið sem framúrskarandi kammermúsiktónskáldi. Verkið er skrifað fyrir píanó, flautu, óbó, horn, víólu, selló og kontrabassa. Hljóðfærasamsetningin var einnig nýlunda á þessum tíma, píanóparturinn er mjög viðamikill, og óvenjuleg er fjarvera fiðlunnar.

KAMMERSVEIT REYKJAVÍKUR var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur og félögum. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Kammersveitin hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan. Árvissir Jólatónleikar Kammersveitarinnar sem helgaðir eru tónlist barokktímans eru í margra huga ómissandi þáttur í aðdraganda jóla. Kammersveitin hefur unnið náið með íslenskum tónskáldum, frumflutt fjölda nýrra íslenskra verka og gefið út fjölda geisladiska.