Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Lúðrasveit Reykjavíkur 95 ára
Draugadans og einleikarar

Lúðrasveit Reykjavíkur er elsta lúðrasveit landsins, en hún var stofnuð 7. júlí 1922 við sameiningu lúðrafélaganna Gígju og Hörpu. Þá þegar hafði Harpan hafið undirbúning að byggingu æfinga- og tónleikahúss í nánu samstarfi við Knud Ziemsen bæjarstjóra Reykjavíkur. Hann hafði bent þeim á að byggja á öskuhaugunum sem blöstu við honum út um skrifstofugluggann. Hljómskálinn var reistur á haugunum við Tjörnina og kostaði fullbúinn kr. 26.415,51.

Á efnisskrá tónleikanna eru eingöngu tónverk sem hafa verið sérstaklega samin eða útsett fyrir Lúðrasveit Reykjavíkur. Flutt verða blásarasveitarverk eftir Elías Davíðsson og Báru Grímsdóttur, og verk fyrir blásarasveit og einleikara eftir Lárus Halldór Grímsson og Báru Sigurjónsdóttur. Að auki verður fluttur sneriltrommukonsertinn Konzertstück eftir Áskel Másson, sem útsettur var sérstaklega fyrir sveitina. Einleikarar á tónleikunum eru flautuleikarinn Sóley Þrastardóttur, Grímur Helgason klarinettuleikari og Frank Aarnink flytur sneriltrommukonsert Áskels.

Of langt mál er að telja upp það sem sveitin hefur afrekað á þessum 95 árum sem eru frá stofnun hennar, en þess má þó geta að sveitin hefur gefið út 5 hljómplötur og diska. Fyrsta platan kom út 1968, var það lítil 45 snúninga plata og á henni lék sveitin m.a. þjóðsönginn. Tvær þær næstu voru 12 laga og voru gefnar út af Svavari Gests og komu þær út 1972 og 1975, en bæði þau ár fór sveitin á Íslendingaslóðir í Kanada. Sú fjórða var tekin upp á 80 ára afmælistónleikum sveitarinnar árið 2002. Fimmta platan kom svo út fyrir jólin 2007 og inniheldur valin verk frá vetrinum 2006-2007.

Miðaverð er 2.500 krónur, frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 14.00.
Ekki láta þessa tónleika fram hjá ykkur fara.
Góða skemmtun.