Tix.is

Menningarfélag Akureyrar

Um viðburðinn

Ýkt sorg, ást og drami eru aðalsmerki tangó en þar sem dalirnir eru djúpir eru topparnir ýktari og gleðin glansar. Allir eiga séns á að gleyma sér um stund. Opna hugann fyrir möguleikum og hugsa um orð, atburði og upplifanir frá nýju sjónarhorni. Takturinn ræðst inn í sálartetrið og kannar hvað leynist þar. Hverjar eru þessar ástríður? Hvaðan koma þær? Hvert leiða þær okkur?

Tónlistina flytja, ásamt Svanlaugu, Agnar Már Magnússon píanóleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari, Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari og Þorgrímur Jónsson kontrabassaleikari.

Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona féll fyrir argentískri tangó tónlist eftir örnámskeiði á Íslandi og fór hálfu ári síðar í hálft ár til Argentínu til þess að lifa og anda að sér tónlistarstefnunni. Hún lýsir því að syngja tangó að það sé “eins og að koma heim”. Hún er nýflutt til Íslands eftir að hafa búið á Spáni í um fimm ára skeið.

Það voru texar Horacio Ferrer sem fyrst kveiktu áhuga Svanlaugar Jóhannsdóttur á argentískum tangó. Hann sér aðra hluti í heiminum en við hin. Í textum hans fer fólk til tungslins í bíl sem dregin er áfram af svölum. Hann kennir fólki hvernig á að deyja, að hætti tangó en jafnframt finnur líka mikið til með blómadrengnum sem selur rósir á útiborðum veitingastaða í Buenos Aires.

Piazzolla og Ferrer unnu mikið saman. Tónlist Piazzolla er unnin með innblástri frá argentískum tangó, en þegar maður ferðast til Argentínu kemur í ljós að Argentínumönnum finnst Piazzolla alls ekki hafa skrifað tangó. Á ákveðinn hátt hjálpar það tónlistinni. Hún er bara sjálfstæð, ein og sjálf og þarf ekki að falla undir allar reglur og hefðir tangósins.

Á tónleikunum verða flutt lög Piazzolla og annara tónskálda sem hafa farið út fyrir hið hefbundna tangó form en notað hann sem innblástur. Einnig verða flutt lög sem eru afrakstur samstarfs Svanlaugar með eigin texta við íslensk tónskáld í svipuðum stíl.

Hallveig Rúnarsdóttir, óperusöngkona:

“Tangóstjarna er fædd! Svanlaug Jóhannsdóttir söng lög frá Buenos Aires í kvöld þannig að gæsahúð, hlátur og tár blönduðust saman í sæluhrolli. Þegar kemur að tangóinum er hún í ALGJÖRUM sérflokki. Þvílíkur tilfinningahiti, þvílík túlkun, þvílíkt músíkalítet og þvílík rödd! Innilega til lukku elskuleg og takk fyrir frábært spil elsku Agnar Már. Drífiði nú í að henda saman bandi og troðið upp sem víðast!”

Bryndís Schram, sjónvarpskona:

“Svanlaug, innilegar þakkir fyrir ógleymanlega samveru á tónleikunum í kvöld. Þú hefur töfrandi sviðsframkomu, magnaða rödd og líkama, sem syngur með röddinni. Vertu nú dugleg að koma þér á framfæri. Mér finnst, að þjóðin megi ekki missa af þér. Gangi þér allt í haginn - þú hefur allt til að bera.”

SumarJAZZ tónleikaröðin í Hofi er samstarf Menningarfélags Akureyrar og 1862 Nordic Bistro.