Tix.is

Salurinn

Um viðburðinn

Fiðluleikarinn Páll Palomares og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja áheyrendur þvert yfir Evrópu í tónum, allt frá Rúmensku dönsunum hans Bartók í austri, með viðkomu í einni af fiðlusónötum Beethoven og suðvestur til Spánar þar sem tónleikarnir munu enda á seiðandi tónum þeirra De Falla og Sarasate.

Tveir af fremstu tónlistarmönnum landsins leiða hér saman hesta sína í fyrsta sinn í metnaðarfullri og aðgengilegri efnisskrá fyrir fiðlu og píanó.  Hinn margverðlaunaði fiðluleikari Páll Palomares og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir munu flytja áheyrendur þvert yfir Evrópu í tónum, allt frá Rúmensku dönsunum hans Bartók í austri, með viðkomu í einni af fiðlusónötum Beethoven og suðvestur til Spánar þar sem tónleikarnir munu enda á seiðandi tónum þeirra De Falla og Sarasate.

Þetta eru tónleikar sem unnendur góðrar kammertónlistar mega ekki láta framhjá sér fara.

Páll Palomares er einn af fremstu fiðluleikurum landsins. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinna, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Hann gegnir nú stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áður gegndi hann sömu stöðu hjá Randers Kammerorkester í Danmörku.

Hann hefur leikið fjölda einleikskonserta með hljómsveitum á íslenskri og erlendri grundu og ber þar hæst að nefna fiðlukonserta Sibelius og Tchaikovski með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Brahms fiðlukonsert með Sinfóníuhljómsveit Árósa og Árstíðirnar eftir Vivaldi með Orchestra Femminile Italiana. Páll er jafnframt virkur í kammertónlist og hefur haldið tónleika víða í Evrópu; á Íslandi, Spáni, Þýskalandi, Englandi, Ítalíu, Frakklandi, Færeyjum, Danmörku og Hollandi.

Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum. Hann var sigurvegari íslensku keppninnar ,,Ungir einleikarar”  árið 2007, hlaut verðlaun í alþjóðlegu keppninni ,,Danish String Competition” árið 2014 auk fjölda annarra verðlauna í keppnum Konunglega Tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn. Páll hefur sótt masterklassa hjá mörgum af virtustu fiðluleikurum heims. Meðal þeirru eru Guilles Apap, Pekka Kuusisto, Noah Bendix-Balgley og Nikolaj Znaider.

Hann lauk meistaragráðu við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2015 og stundar nú sólistanám við sama skóla undir handleiðslu fiðluleikarans Serguei Azizian. Hann lauk einnig bakkalárgráðu í hinum virta Hochschule für Musik "Hanns Eisler" í Berlín árið 2013. Kennari hans var Prof. Ulf Wallin. Áður en Páll hóf námsferil sinn erlendis lauk hann námi við Tónlistarskóla Kópavogs og Listaháskóla Íslands þar sem hann naut leiðsagnar Margrétar Kristjánsdóttur og Auðar Hafsteinsdóttur.

Hann leikur á fiðlu frá Vínarborg, smíðuð af Gabriel Lemböck ca. 1850.

 

Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari stundaði nám hjá Þorsteini Gauta Sigurðssyni og Halldóri Haraldssyni og lauk Píanókennaraprófi og Burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún lauk síðar Diplómaprófi og Einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku undir handleiðslu John Damgaard.

Þaðan lá leiðin til Lundúna þar sem hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Aðalkennari hennar þar var Michael Dussek.

Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum meistanámskeiðum, m.a. hjá Geörgy Sebök, Einar Steen-Nökleberg, Vitaly Margulis, Paul Baura-Skoda and Boris Berman.

Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri  m.a. komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi verka, m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.

Undanfarin ár hefur hún lagt mikla áherslu á flutning kammertónlistar og ljóðasöngs. Hún tók t.d. þátt í Song Cirlce í Royal Academy of Music, meistaranámskeiðum hjá Barböru Bonney, sir Thomas Allen, Helmut Deutch, Roger Vignoles og Audrey Hyland auk þess að vera virkur þátttakandi og meðleikari í The North Sea Vocal Academy í Danmörku.

Af nýlegum verkefnum má nefna frumflutning á sönglögum eftir Áskel Másson , Atla Heimi Sveinsson og Oliver Kentish, einleikstónleika í Salnum, tónleika með verkum fyrir tvö píanó í Salnum, fjölmarga tónleika á vegum CCCR; Pearls of Icelandic Song, í Hörpu, Háskólatónleika með kammerverkum eftir Þorkel Sigurbjörnsson og flutning á sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jórunnar Viðar í Listasafni Sigurjóns.

Eva Þyri hlaut mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Mannsröddinni eftir Poulenc í febrúar 2017.