Tix.is

Salurinn

Um viðburðinn

Jóhann Kristinsson & Ammiel Bushakevitz halda ljóðatónleika.

Á efnisskránni verður Liederkreis, Op. 39 eftir Robert Schumann, Lieder eines fahrenden Gesellen og nökkur lög úr Des Knaben Wunderhorn eftir Gustav Mahler.

Jóhann Kristinsson, baritón hefur undanfarið vakið athygli í Þýskalandi fyrir ljóðasöng sinn.

Nú í ár lenti Jóhann í þriðja sæti í keppninni „Das Lied" í Heidelberg en einnig hlaut hann sérstök verðlaun áheyrenda. Dómnefndina skipuðu meðal annarra söngvararnir Thomas Quasthoff, Bernarda Fink, Brigitte Fassbaender og Felicity Lott. Í fyrrasumar komst hann í úrslit í alþjóðlegu Robert Schumann keppninni, sem haldin er fjórða hvert ár í Zwickau.

Jóhann er að ljúka námi við tónlistarháskólann Hochschule für Musik „Hanns Eisler” Berlin. Aðal kennari hans var Scot Weir. Meðal annarra kennara hans við skólann voru píanistinn Wolfram Rieger, Thomas Quasthoff, Júlía Várady og fleiri söngvarar. Jóhann hefur sótt „Masterclass” hjá Thomas Hampson og Graham Johnson.

Í námi sínu við skólann fór hann með hlutverk Evgení Onjegins úr samnefndri óperu Tsjajkovskís. Einnig kom hann fram á tónleikum á vegum skólans sem bera titilinn “Exzellenz-Konzert” og eru styrktir af Daniel Barenboim fyrir framúrskarandi nemendur.

Hann hlaut styrk úr tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi árið 2017.

Einnig hlaut hann styrk úr Minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar árið 2012.

Jóhann hefur nýlega skrifað undir tveggja ára samning við óperustúdíó ríkisóperunnar í Hamborg.

 

Ammiel Bushakevitz, píanisti fæddist í Ísrael og ólst upp í Suður Afríku. Hann kemur reglulega fram á virtum tónlistarhátíðum víða um heim, t.d. Salzburger Festspiele, Bayreuth Festival, Lucerne Festival, Festival d’automne à Paris, Festival Pontino di Latina Roma, the Jerusalem Schubertiade, the Vancouver Chamber Music Series í Kanada og Festival d’Aix-en- Provence í Frakklandi.

Hann hefur unnið til fjölda verðlauna, bæði fyrir einleik og einnig sem ljóðameðleikari. Þar á meðal eru Richard Wagner verðlaunin, Evrópusambandsverðlaunin, The Oppenheimer Trust Award, Verðlaun borgarinnar Lausanne í Sviss, meðleikaraverðlaunin í Wigmore Hall ljóðasöngskeppninni, meðleikaraverðlaunin í „Das Lied” ljóðasöngskeppninni, auk annarra. Hann var útnefndur Edison Fellow of the British Library í London árið 2014. Hann stundaði nám við Hochschule für Musik und Theater “Felix Mendelssohn Bartholdy” í Leipzig og við Conservatoire Nationale Supérieur de Musique í París. Phillip Moll, Boris Berman og Alfred Brendel eru meðal hans helstu leiðbeinenda.

Ammiel gaf út sinn fyrsta hljómdisk árið 2013 með seinni píanóverkum Franz Schuberts. Síðan þá hefur hann gefið út Impromptus eftir Schubert (Lissabon, Hänssler Classics), Sónötur Mozarts fyrir píanó og fiðlu (Barcelona 2015, Solfa Records) og disk með ljóðasöngvum Franz Liszt með tenórnum Timothy Fallon (Jerusalem 2015, BIS Records).

Ammiel var einn af síðustu nemendum Dietrich Fischer-Dieskaus en hefur einnig notið leiðsagnar Elly Ameling, Thomas Quasthoff, Thomas Hampson, Matthias Goerne, Barbara Bonney og Teresa Berganza auk annarra. Árið 2011 var honum boðið að leika undir á námskeiðum Dietrich Fischer-Dieskau í Listaháskólanum í Berlín og í Schwarzenberg Schubertiade í Austurríki.

Jóhann og Ammiel flytja spennandi dagskrá með lögum eftir tvö af þeirra uppáhalds tónskáldum, Robert Schumann og Gustav Mahler.