Tix.is

Salurinn

Um viðburðinn

Rokkkór Íslands er rétt tæplega þriggja ára gamall og fer heldur óhefðbundnari leiðir en gengur og gerist í kórsöng. Kórinn skipar um 35 söngvara sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa mikla reynslu í kór-, popp-, rokk- og dægurlagasöng. Útkoman er kraftmikill og algjörlega einstakur hljómur sem er klárlega nýr sinnar tegundar hér á landi og eitthvað sem vert er að kíkja á.

Á þessum tónleikum mun kórinn slaka aðeins á í keyrslunni sem hann hefur verið þekktur fyrir hingað til og bjóða upp á órafmagnaða tónleika. Flutt verður góð blanda af þekktum rokklögum frá áttunda (70´s), níunda (80´s) og tíunda áratugnum (90´s) sem flestir ættu að kannast við. Stór lög eins og Bohemian rhapsody, Stairway to heaven og November rain munu fá að njóta sín.


Með kórnum spila þeir Sigurgeir Sigmundsson á kassa- og steelgítar, Ingólfur Magnússon á kontrabassa, Þorbergur Ólafsson á slagverk og stjórnandi kórsins, Matthías V. Baldursson (Matti sax) spilar á píanó. Hljóðmaður er Hrannar Kristjánsson .

Kórinn var stofnaður vorið 2015 af Matta sax og nokkrum áhugasömum söngvurum sem langaði að búa til öðruvísi kór sem hentaði popp- og rokkröddum. Fyrsta verkefni kórsins var að fara í hljóðver og taka upp nokkur vel valin lög sem voru gefin út 2015-16 og hafa hlotið mjög góðar viðtökur. Kórinn kom fram í fyrsta sinn í Eldborg haustið 2015 á afmælistónleikum Sniglabandsins og eftir það var ekki aftur snúið enda Rokkkór Íslands kominn til að vera! Kórinn hélt svo sína fyrstu tónleika í Kaldalóni í febrúar 2016 þar sem tónlist níunda áratugarins (80´s) var gefin góð skil en vegna eftirspurnar voru haldnir tvennir tónleikar það kvöld og seldist upp á þá báða! Eftir það var út séð að kórinn þyrfti stærri sal og færði hann sig yfir í Norðurljós haustið 2016 með Seventís tónleika sem einnig seldist upp á og Næntís tónleika vorið 2017 á sama stað.