Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Lúðrasveit Reykjavíkur heldur stórtónleika í Kaldalónssal Hörpu þann 24. febrúar kl. 15.00.

Á tónleikunum verður flutt tónlist úr ýmsum áttum, auk þess sem Tómasar M. Tómassonar bassaleikara verður minnst á eftirminnilegan hátt.

Á tónleikunum verða m.a. flutt verkin Conquest of Paradise eftir Vangelis, Dance of the Selkies eftir Alex Poelman og In the mystic land of Egypt eftir enska tónskáldið Albert Ketelbey. Að auki verður flutt syrpa laga úr Vesalingunum.

Til að minnast Tómasar M. Tómassonar mun lúðrasveitin njóta aðstoðar hins sívinsæla Valskórs og hins ástsæla karlakórs Bartóna auk uppistandarans Ara Eldjárn, en hann mun sjá um upplestur úr hinni margfrægu bók Tómasar „Sögur Tómasar frænda.“ Þá verður áheyrendum boðið að taka þátt í fjöldasöng (öskri) í laginu „Jón var kræfur karl og hraustur“ sem Tómas gerði ódauðlegt í flutningi sínum með Þursaflokknum.

Lúðrasveitina skipa bæði áhuga- og atvinnutónlistarmenn. Lúðrasveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1922 við samruna lúðrasveitanna Hörpu og Gígju og er því elsta starfandi hljómsveit landsins. Stjórnandi er Lárus Halldór Grímsson. Miðaverð er 2.500 krónur, frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 15.00. Verið velkomin.